Fótbolti

„Komum sterkt til baka og kláruðum þetta“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðmundur Baldvin Nökkvason var maður leiksins í kvöld.
Guðmundur Baldvin Nökkvason var maður leiksins í kvöld. Vísir/Diego

Guðmundur Baldvin Nökkvason skoraði eitt og lagði upp tvö er Stjarnan vann öruggan 4-1 sigur gegn ÍA í Bestu-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Guðmundur átti frábæran leik fyrir heimamenn og var verðskuldað valinn maður leiksins á Samsung-vellinum í kvöld.

„Þetta er bara það sem við viljum gera, fá þrjú stig og mörk. Úrslitin voru góð í dag og bara fínt veður, þannig þetta var bara geggjað,“ sagði Guðmundur í leikslok.

Hann segist geta gengið stoltur frá sinni frammistöðu í leik kvöldsins.

„Heldur betur. Ég er mjög ánægður með leikinn í dag, en við reyndar fáum á okkur skítamark í byrjun. En við komum sterkt til baka og kláruðum þetta. Ég er sáttur og ég held að liðið sé sátt líka.“

Þá segir hann að þrátt fyrir að Stjarnan hafi lent undir snemma leiks hafi liðið aldrei haft áhyggjur af leiknum.

„Við vorum ekkert stressaðir. Við bara fáum á okkur þetta mark og vorum óheppnir. Keyrðum bara á þetta og héldum áfram. Héldum áfram að keyra á okkar uppleggi og það gekk í dag, heldur betur.“

„Við tökum helling með okkur úr þessum leik og nýtum mómentið í næsta leik,“ sagði Guðmundur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×